„Laser-fókus“ Play í Litháen

Flugfélagið Play ætar að opna starfsstöð í Litháen til þess …
Flugfélagið Play ætar að opna starfsstöð í Litháen til þess að lækka kostnað og auka samkeppnishæfni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Birgir Jónsson, forstjóri Play, og Einar Örn Ólafsson, stjórnarformaður félagsins, segja að nýkynntar fyrirætlanir um að opna starfsstöðvar í Litháen hafi verið gerðar með það fyrir augum að lækka launakostnað. Þar fyrir utan segja þeir í samtali við ViðskiptaMoggann að meira framboð af sérmenntuðu fólki sé í Litháen en á Íslandi.

Þeir segja að það sé rökrétt framvinda uppbyggingar félagsins að opnuð sé starfsstöð erlendis. Þegar fyrirhugaðar flugferðir milli Bandaríkjanna og Evrópu hefjast verður ekki mikil þörf fyrir t.d. íslenskumælandi starfsfólk í þjónustuveri og því sé vel hægt að starfrækja slíka þjónustu utan landsteinanna til viðbótar við þjónustuver og skrifstofu hér á landi fyrir íslenska neytendur. Til viðbótar má nefna að Play hyggst fá til liðs við sig forritara í Litháen, starfsfólk sem sinnir markaðsmálum, fjártæknimálum og starfsfólk í almennari skrifstofustörf.

Auðvelt er að gera sér í hugarlund hvað þeim, sem mjög annt er um kjör launþega, myndu segja umstarfsstöðvar íslensks flugfélags á markaði í Litháen. Spurðir út í fyrirsjáanlega gagnrýni úr þeirri átt segja Birgir og Einar að málið sé einfalt.

Af hverju Litháen?

„Við höfum fengið spurninguna „af hverju Litháen?“ Og svo hafa margir spurt okkur „af hverju ekki Serbía eða Búlgaría eða Svartfjallaland eða Albanía, þau eru miklu ódýrari?“ Litháen er alveg Evrópusambandsland, launin þar eru ekkert ósvipuð bara Portúgal, svo við tökum bara dæmi úr V-Evrópu. Svo snýst þetta ekkert bara um launakostnaðinn heldur einmitt bara aðgang að sérmenntuðu starfsfólki. Ef þú ætlar að ráða eitthvert 10 manna forritunarteymi hérna á Íslandi, það er nánast bara ekkert hægt, það er eiginlega bara útilokað,“ segir Einar áður en Birgir skýtur inn í:

„Markaðurinn er alveg búinn að ákveða hvað hann vill: Hann vill lág verð. Einhvern veginn þarf að mæta því og það er erfitt ef þú ert með allan kostaðinn þinn í dýrasta landi í heimi liggur við.“

Birgir Jónsson, forstjóri Play.
Birgir Jónsson, forstjóri Play. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Laser-fókus“

Play er enn tiltölulega nýtt flugfélag og sviptingar í flugrekstri eru miklar eins og íslenskir neytendur vita vel og hafa séð undanfarin ár, nú síðast með falli WOW Air. Birgir og Einar segja, nánast í kór, að stjórnendur flugfélaga verði að vera gríðarlega einbeittir því samkeppnin er hörð og baráttan er háð á degi hverjum allan ársins hring. Þeir segja enda að það sé ástæðan fyrir því að verið sé að stækka rekstur Play út til Litháen. Ef kostnaður við reksturinn er ekki lækkaður með þessum hætti skapast hætta á því að félagið tapi fyrir samkeppnisaðilum, sem eru mun fleiri en bara Icelandair, eins og margir gleyma gjarnan. Raunar segir Birgir að samkeppnisaðilar Play séu bara ætíð jafnmargir og þau flugfélög sem fljúga til og frá Íslandi. Þannig sé Icelandair bara einn samkeppnisaðili af fjölmörgum.

„Þú þarft bara að vera með „laser-fókus“ á kostnaðinn. Þess vegna erum við að gera þetta, þetta er bara ein leiðin til að lækka kostnaðinn og það er það sem markaðurinn vill – það er enginn Kani að fara að ákveða að fljúga með okkur eða Icelandair af því það eru svo löng fæðingarorlof á Íslandi eða stutt vinnuvika eða svo góðir lífskjarasamningar,“ segir Birgir og bætir við að verið sé að ráðast í útrás snemma til þess að þurfa ekki að segja neinum upp. Þannig er ekki verið að koma upp neinni starfsemi, sem fyrir er til á Íslandi og legðist niður við útvíkkunina. „Við erum í raun og veru að gera þetta núna til að þurfa ekki að segja neinum upp,“ segir Birgir.

Einar Örn Ólafsson, stjórnarformaður Play.
Einar Örn Ólafsson, stjórnarformaður Play. mbl.is/Unnur Karen

Búast við hagnaði eftir ár

Play kynnti ársfjórðungsuppgjör sitt fyrir síðustu helgi sem sýndi fram á neikvæða afkomu um 1,4 milljarða króna, sem var undir væntingum. Þrátt fyrir það segja bæði Birgir og Einar að félagið sé vel statt enda hafi það verið vel fjármagnað frá upphafi og svo hafi kostnaður verið minni en áætlað var.

„Tapið er heldur meira en við lögðum upp með,“ segir Einar. „Við vorum að vona í vor að faraldurinn væri svona í rénun, sem hefur síðan ekki alveg gengið eftir. Við fjármögnuðum okkur samt betur en upphafleg plön gerðu ráð fyrir og við fjármögnuðum okkur sérstaklega til að vera klár í alveg nokkur áföll. Og frávikið í krónum talið er mjög óverulegt með hliðsjón af peningunum sem við söfnuðum, þannig að peningastaðan á reikningnum okkar er bara eiginlega sú sama og við gerðum ráð fyrir að hún yrði.“

„Ársfjórðungurinn sem við erum að kynna núna endar náttúrulega í september, þar sem við vorum með 52% sætanýtingu en í október var sú tala komin upp í 68%, þannig að ég ætla ekkert að fara sitja hérna að ári og útskýra af hverju við erum í tapi þá,“ bætir Birgir við.

Lífræn aukning í sætanýtingu

Og Play-fólki er tíðrætt um sætanýtingu, eins og sást á fjárfestadegi sl. föstudag, sem haldinn var í Kaupmannahöfn. Þar kom einmitt fram að sætanýting félagsins stæði í um 68%, sem er hækkun upp á 27 prósentustig síðan í sumar þegar starfsemin hófst. Birgir og Einar voru spurðir hvort flugferðum hefði verið fækkað fram í tímann og sætaframboð þannig lækkað en þeir taka að öllu leyti fyrir það.

„Þetta er bara meiri sala og fólk er bara byrjað að vilja ferðast meira. Við erum náttúrulega svolítið að hanga bara á íslenska markaðnum og Íslendingar fengu þarna aðeins kalda fætur í sumar þegar við vorum nýbyrjuð en svo núna bara í september/október byrjaði fólk að ferðast. Og við sjáum ekkert merki um það núna að það sé eitthvað að hætta,“ segir Birgir. Einar tekur heilshugar undir þetta og bendir á að vanalega séu flugmiðar bókaðir langt fram í tímann. Þannig sé ekki nema eðlilegt að sætanýting komist ekki á almennilegt skrið fyrr en nokkrum mánuðum eftir að miðasala hefst.

„Við náttúrulega byrjuðum að selja miða í maí og venjulega viltu vera með sölu 6-12 mánuði fram í tímann vegna þess að fólk pantar sér alla jafna flug með löngum fyrirvara. Við byrjum í maí og fljúgum svo fyrst mánuði síðar, það er svolítið erfitt að fylla fyrstu vélarnar á þeim tíma. Fólkið sem var að ferðast þá var bara búið að kaupa miðana sína,“ segir Einar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK