Forsvarsmenn flugfélagsins Play gera ráð fyrir að fyrirtækið skili hagnaði einhvern tímann á næsta ári. Tilkynnt var fyrir helgi að afkoma félagsins hafi verið neikvæð á þriðja ársfjórðungi þessa árs um 1,4 milljarða króna.
Í viðtali við Morgunblaðið segir Birgir Jónsson, forstjóri Play, að þótt lausafjárstaða fyrirtækisins sé góð og hægt væri að reka það með tapi í örfá ár sé auðvitað markmiðið að skila hagnaði sem fyrst.
Þá segir Einar Örn Ólafsson, stjórnarformaður í Play, að það væru mikil vonbrigði ef ekki næðist að skila hagnaði á að minnsta kosti einum ársfjórðungi næsta árs. Þeir segja báðir að væntanlega verði félagið rekið með hagnaði næsta sumar, þar sem sætanýting þess er á uppleið og vegna þess að kostnaður var lægri en gert var ráð fyrir.