Skráð atvinnuleysi var 4,9% í október og lækkaði úr 5,0% í september. Alls fækkaði atvinnulausum að meðaltali um 428 sem nemur um 4,4% fækkun atvinnulausra frá septembermánuði.
Þetta kemur fram á vef Vinnumálastofnunar.
Atvinnulausir voru alls 10.083 í lok október, 5.585 karlar og 4.498 konur og fækkaði atvinnulausum körlum um 141 frá septemberlokum og atvinnulausum konum fækkaði um 204. Atvinnuleysi var mest á Suðurnesjum eða 9,2%. Þar fækkaði atvinnulausum um 47 frá fyrri mánuði en vegna árstíðarsveiflu á vinnuafli reiknast hækkun um 0,1 prósentustig, að því er stofnunin greinir frá.
Næst mest var atvinnuleysið 5,2% á höfuðborgarsvæðinu en þar minnkaði það úr 5,4% frá fyrri mánuði. Á öðrum svæðum var breytingin óveruleg.
Þá spáir Vinnumálastofnun því að atvinnuleysi muni lítið breytast eða aukast lítilsháttar í nóvember vegna árstíðarsveiflu og verða á bilinu 5,0% til 5,3%.