Fjárfestingar í þágu stöðvunar á losun gróðurhúsalofttegunda þarf að fjórfaldast á ári hverju til ársins 2030 ef markmið um losun eiga að nást.
Þetta kemur fram í nýjustu hagsjá Landsbankans.
Þar segir að fjárfestingar á ári hverju í dag nemi um einni billjón bandaríkjadala en að fjárfestingar verði að væra nær fjórum billjónum dala á ári til ársins 2030.
Þannig segir í hagsjánni að vel sé gerlegt að snúa blaðinu við og koma í veg fyrir að hnattræn hlýnun verði meiri en 1,5 gráða á selsíus síðan á tímum iðnbyltingar, en að það verkefni verði flókið og dýrt.
„Það verður mikið átak að fjármagna nauðsynlegar fjárfestingar, ekki síst hjá fátækari og minna þróuðum ríkjum. Það er hins vegar nauðsynlegt að styrkja aðkomu þessara þjóða að málinu, ekki síst vegna þess að þær byggja margar á mjög mikilli notkun kola. Eins þarf að tryggja áframhaldandi lífsgæði og stöðugleika í þróuðum löndum. Verkefnin eru ærin, en engu að síður gerleg,“ segir í hagsjá Landsbankans.