Á þriðja þúsund manns hafa náð í nýtt sjálfsafgreisluapp Húsasmiðjunnar og skráð sig þar inn. Lausnin byggir á innskráningu með rafrænum skilríkjum en með þeim hætti veit fyrirtækið hver notandinn er. Hann getur þar af leiðandi nýtt sér sín viðskipta- og afsláttarkjör.
„Stóri munurinn á þessu appi og smáforritum þar sem þú verslar án innskráningar með rafrænum skilríkjum, er að þarna bæði nýturðu þinna greiðslukjara en sérð auk þess nettóverðið strax. Þá verða öll tilboð samstundis sýnileg,“ segir Árni Stefánsson forstjóri fyrirtækisins í samtali við ViðskiptaMoggann.
Markmiðið með innleiðingunni er að sögn Árna að bæta upplifun viðskiptavina.