Verðmæti fyrirtækja á sviði fjártæknilausna ákvarðast að stórum hluta af þeim áskriftartekjum sem þau skila. Þar ræður væntur vöxtur þeirra einnig miklu. Á þetta bendir Georg Lúðvíksson, forstjóri og stofnandi fyrirtækisins. Hann segir í viðtali í ViðskiptaMogganum í dag að bankar hafi haldið mjög að sér höndum á fyrstu vikum og mánuðunum eftir að kórónuveirufaraldurinn braust út og að þá hafi tekjur fyrirtækisins lítið aukist. Nú hafi fjármálastofnanir um allan heim hins vegar skynjað mikilvægi þess að fjárfesta í stafrænum lausnum og nú sé talsverður vöxtur í áskriftartekjum Meniga. Nema þær á þessu ári um 1,5 milljörðum króna.
Spurður út í margfaldarann á þessum markaði segir Georg að hann liggi gjarnan á breiðu bili milli 5 og 20, allt eftir því hversu hratt fyrirtækin vaxa og því hversu öruggar tekjurnar eru.
„Ef við höldum vel á spilunum og vöxturinn verður eins og við höfum trú á þá gæti virðið legið einhvers staðar norðan megin við 100 milljón evrur á næsta ári og farið svo vaxandi. Ef vöxturinn reynist hægur þá verður staðan önnur. Það er oft stutt á milli velgengni og vonbrigða á þessum markaði,“ segir hann og glottir í kampinn.
Georg segir eigendur fyrirtækisins ekki á þeim buxunum að ætla að selja það á komandi árum til stærri keppinauta. Frekar komi til greina að stefna á yfirtökur eða sameiningar. Þá komi einnig til greina að skrá félagið á markað.
Lestu ítarlegt samtal við Georg í ViðskiptaMogganum í dag.