Einar Þorsteinsson tekur við starfi forstjóra Alcoa Fjarðaáls þann 1. desember 2021. Tor Arne Berg sem hefur sinnt starfinu síðastliðin tvö ár snýr aftur til Noregs í nýtt starf hjá Alcoa en hann mun vera Einari innan handar út dembermánuð. Í starfi sínu sem forstjóri Fjarðaáls mun Einar leiða starfsemina og móta stefnu fyrirtækisins.
Einar hefur fram til þessa starfað hjá Elkem og þar hefur hann gegnt margvíslegum stöðum um víða veröld. Starfsstöðvar hans hafa verið á Íslandi, í Frakklandi og í Kína og störfin fjölbreytt, þeirra á meðal forstjóri, ráðgjafi, yfirmaður ferlaþróunar og umdæmisstjóri í Asíu. Áður en Einar tók til starfa hjá Elkem vann hann hjá nokkrum fyrirtækjum í stjórnunarstöðum og hefur því víðtæka reynslu á því sviði, að því er fram kemur í tilkynningu.
Einar er menntaður vélvirki, vélaverkfræðingur og með meistaragráðu í iðnaðar- og vélaverkfræði frá Álaborgarháskóla. Sérsvið hans eru viðskipta- og stefnumótun, markaðsseting, ferla- og rekstrarstýring og hagræðing í aðfangakeðju. Þessi víðtæka reynsla og þekking mun nýtast Einari vel í nýju starfi hans hjá Fjarðaáli.
Eiginkona Einars er Edda Elísabet Kjerúlf, þau eiga fjögur börn og fimm barnabörn. Einar mun flytja frá Reykjavík til Austurlands eftir að hann tekur við starfinu.