ESA, eftirlitsstofnun EFTA, segir að Landsbankinn og Íslandsbanki hafi ekki þegið neina ríkissaðstoð, eins og Arion banki bar upp við stofnunina í kvörtun sinni.
Arion banki vildi þannig meina að Landsbankinn og Íslandsbanki, sem eru að hluta í eigu ríkisins, byggju við lægri arðsemiskröfur en bankar í einkaeigu á Íslandi, þ.e. Arion banki.
Í tilkynningu sem ESA sendir frá sér segir að kvörtunin hafi borist um mitt ár 2019 þar sem Arion banki hélt því fram að íslenska ríkið veitti Landsbankanum og Íslandsbanka ósanngjarnt forskot með því að samþykkja staðla sem aðrir markaðsaðilar hefðu ekki aðgang að.
„Frumrannsókn ESA leiddi í ljós að ekkert bendi til þess að Bankasýsla ríkisins, sem fer með eignarhluti ríkisins í Íslandsbanka og Landsbankanum, hafi sett bönkunum tveimur kröfur um arðsemi eigin fjár sem séu lægri en gengur og gerist hjá öðrum einkareknum bönkum á EES svæðinu. Sömuleiðis telur ESA ekkert benda til annars en að Bankasýsla ríkisins starfi sjálfstætt gagnvart fjármála- og efnahagsráðuneytinu,“ segir í tilkynningu ESA.
Afstaða ESA til kvörtunar Arion banka verður birt í heild sinni á næstu vikum, að því er fram kemur í tilkynningunni.