Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir að viðvarandi verðbólguþrýstingur geti orðið til þess að fjármögnunarkostnaður húsnæðis verði dýrari fyrir almenning á Íslandi. Það geti svo leitt til þess að samspil fasteignamarkaðarins og verðbólgu verði öfugt við það sem nú er, en fasteignamarkaðurinn hefur undanfarið verið drifkraftur í verðbólgu frekar en að draga úr henni.
„Sú staða gæti komið upp að fasteignamarkaðurinn verði ekki orsakavaldur heldur fórnarlamb,“ sagði Ásgeir á fundi peningastefnunefndar bankans í morgun. Í samtali við mbl.is eftir fundinn sagði hann að með viðvarandi verðbólguþrýstingi, sem meðal annars væri drifinn áfram af launahækkunum umfram framleiðsluaukningu, þá gæti Seðlabankinn þurft að hækka vexti enn frekar. Það þýddi dýrari fjármögnun húsnæðis sem gæti dregið úr eftirspurn og skilaði sér í endurmati á virði fasteigna, en árshækkun fasteigna hér á landi var nýlega mæld yfir 16%.
Á fundinum í morgun var Ásgeir nokkuð harðorður varðandi komandi launahækkanir og að hagvaxtarauki úr kjarasamningum verði virkjaður. Sagði hann að enginn hefði séð fyrir samdrátt vegna faraldursins og þó að hagkerfið væri núna að koma til baka, þá þýddi það ekki að landsframleiðsla hefði aukist frá því fyrir faraldur.
Segir Ásgeir að Seðlabankinn geti alla jafna ráðið við alla verðbólguþætti nema vinnumarkaðinn. „Við erum með tæki til að dempa á fasteignamarkaðinum,“ segir hann. Þá telji hann að hrávöruhækkanir á alþjóðamörkuðum muni ganga til baka. „En við ráðum ekki við vinnumarkaðinn. Ef samið verður um launahækkanir sem eru ekki í samræmi við framleiðslu þá ráðum við ekki við það.“
Ásgeir segir að lífskjarasamningarnir hafi gengið tiltölulega vel hingað til og að framtíðin velti á hvað aðilar vinnumarkaðarins geri þegar þeir setjast niður eftir áramót og ræði komandi kjarasamninga næsta haust. „Almennt er óheppilegt að fá launahækkanir þegar mikil verðbólga er í kerfinu. Það veldur því að mun minni fyrirstaða er að velta hækkunum út í verðið, því ef allir eru að hækka verð þá er ekkert mál fyrir þig að hækka heldur,“ segir Ásgeir.
Spurður út í viðbrögð sem ummæli hans gætu fengið frá verkalýðshreyfingunni segir Ásgeir að hann og peningastefnunefnd séu aðeins að lýsa veruleikanum. „Við höfum hlutverk að tryggja lága verðbólgu og að fólkið í landinu geti gert samninga, hvort sem það eru kjarasamningar eða aðrir samningar,“ segir hann.
Eitt af því sem hefur verið nefnt af verkalýðshreyfingunni er að vaxtamál verði tengd í kjarasamninga, svipað og stundum hefur verið horft til með verðbólgumál. Spurður um þetta segir Ásgeir að í sjálfu sér sé sú hugmynd ekki alslæm. „Það er bara svipað og með verðbólgumálin.“ Spurður hvort slík ákvæði gætu haft einhver höfrungahlaupsáhrif segir Ásgeir ekki telja svo vera. „Ég treysti því að þeir sem eru kosnir til forystu í verkalýðshreyfingunni geri ekki samninga sem eru slæmir fyrir sína félagsmenn,“ segir hann og vísar þar til þess að menn hljóti að vilja stöðugleika.