Tölvuleikjafyrirtækið CCP fær 550 milljónir króna í sérstakan skattafrádrátt vegna nýsköpunar á þessu ári. Er það rúmlega 230 milljónum meira en næsta fyrirtæki á listanum, en CCP sækir um skattafrádráttinn í gegnum tvö félög þar sem hámarkið er almennt 275 milljónir fyrir stór fyrirtæki og 385 milljónir fyrir lítil og millistór fyrirtæki.
Þetta má sjá á nýjum lista sem birtur hefur verið á vefsíðu Skattsins yfir þau fyrirtæki sem hafa fengið meira en 500 þúsund evrur í skattafrádrátt, en Kjarninn greinir fyrst frá.
Í vikunni var greint frá því að heildarupphæð endurgreiðsla ríkissjóðs vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar næmi alls 10,4 milljörðum í ár, en upphæðin var 5,2 milljarðar í fyrra.Mikil aukning endurgreiðslna milli ára kemur m.a. til vegna tímabundinnar hækkunar á endurgreiðsluhlutfalli og hækkunar á kostnaði til útreiknings á frádrætti frá álögðum tekjuskatti árin 2021 og 2022.
CCP fær skattafrádráttinn í gegnum félögin CCP ehf og CCP platform ehf. Samkvæmt lista skattsins er CCP skráð sem útgáfa tölvuleikja, en CCP platform sem hugbúnaðargerð.
Það fyrirtæki sem fær næst hæstu upphæðina er LS retail, eða rúmlega 317 milljónir, en fyrirtækið er í hugbúnaðargerð.
Þar á eftir koma þrjú fyrirtæki með 275 milljónir, sem er sem fyrr segir hámark fyrir stærri fyrirtæki. Þetta eru Origgo, Össur og Alvoteh. Öll þessi fyrirtæki fengu einnig hámarkið í fyrra, en það var þá 180 milljónir.
Marel fær þá 263 milljónir í skattafrádrátt, Controlant 245 milljónir og Coripharma 241 milljón.
Nokkur rótgróin fyrirtæki er að finna á listanum meðal annars Héðinn með 124 milljónir í skattafrádrátt og Brim með 121 milljónir. Þá er Elkem með 80 milljónir.