Vísitala íbúðaverðs hækkaði um 1,4% í október samkvæmt nýjum tölum Þjóðskrár. Húsnæðisverð hefur því hækkað um 4,3% síðustu þrjá mánuði og um 17,1% undanfarna tólf mánuði. Árshækkun húsnæðis hefur því ekki mælst meiri frá í október 2017. Raunverð húsnæðis er í sögulegum hæðum og hefur stigið hratt á þessu ári og töluvert umfram launaþróun.
Þar hefur verð á sérbýli hækkað töluvert umfram verð á fjölbýli frá áramótum. Skýrist þróunin af mörgum þáttum, m.a. hagfelldum vaxtakjörum og litlu framboði af húsnæði, að því er fram kemur í mánaðaryfirliti stefnumótunar og greiningar frá Alþýðusambandi Íslands.
Fjallað er um að vextir hafi verið lágir seint árið 2019 og síðasta ár og það hafi gert stærri hópi kleift að koma inn á húsnæðismarkað og stærri hóp kleift að stækka við sig húsnæði.
Vaxtahækkanir hófust að nýju eftir heimsfaraldur í maí þegar Seðlabankinn tilkynnti um 0,25 prósentu hækkun. Í kjölfarið hafa vextir hækkað í þrígang, í ágúst, október og nóvember og eru í dag 2%. Seðlabankinn hefur jafnframt þyngt tóninn í yfirlýsingum um húsnæðismarkaðinn og gripið til þjóðhagsvarúðartækja til að tryggja að útlán þróist ekki úr takti við þróun tekna.
Vaxtahækkanir gætu þó haft töluverð áhrif á fjárhag heimila hafi þau gengið langt í skuldsetningu. Áhrif á greiðslubyrði gæti auðveldlega numið tugum þúsunda.
Sem dæmi má nefna jafngreiðslulán að upphæð 50 milljóna sem tekið var til 40 ára var með um 190 þúsund króna greiðslubyrði í upphafi árs.
Í dag eru breytilegir vextir í kringum 3,7% og greiðslubyrði lánsins hefur því hækkað um 9 þúsund krónur á mánuði. Hefði stýrivaxtahækkunin að öllu leyti miðlast í vexti væru þeir 4,15% og greiðslubyrðin hækkað um 22 þúsund á mánuði. Fari stýrivextir áfram hækkandi er ljóst að áhrif vaxtahækkana geta verið veruleg á heimili.