Icelandair hefur ákveðið að gera breytingar á skipulagi fyrirtækisins og verður sölu- og þjónustusviði skipt upp í tvö svið. Mun annað þessara nýju sviða jafnframt sameinast inn í núverandi svið leiðakerfis og sölu.
Greint var frá því í síðasta mánuði að Birna Ósk Einarsdóttir, sem hefur gegnt stöðu framkvæmdastjóra sölu- og þjónustusviðs, væri að láta af störfum, en hún mun taka við starfi í framkvæmdastjórn APTM, dótturfélags flutningafyrirtækisins Maersk.
Í tilkynningu frá Icelandair kemur fram að annars vegar sé um að ræða svið sem leggur áherslu á upplifun viðskiptavina ásamt því að styrkja Icelandair-vörumerkið. Fær yfirmaður þess titilinn framkvæmdastjóri þjónustu- og markaðsmála (e. chief customer officer). Ekki hefur enn verið ráðið í þá stöðu, en ráðningarferli hefst nú þegar að því er fram kemur í tilkynningunni.
Hitt sviðið mun leggja áherslu á tekjumyndun félagsins og verður leitt af framkvæmdastjóra leiðakerfis og sölu (e. chief revenue officer). Mun það sameina allar tekjudrifnar einingar félagsins, þ.e. stjórnun leiðakerfis, tekjustýringu og sölu. Tómas Ingason hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri sviðsins, en hann hefur verið framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar og stafrænnar umbreytingar síðan hann kom aftur til liðs við Icelandair á árinu 2019.
Hann var framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs WOW air á árunum 2018-2019 og forstöðumaður stafrænnar framtíðar hjá Arion banka á árunum 2016 til 2018. Þá var hann framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá WOW air á árinu 2014. Fyrir þann tíma var hann ráðgjafi hjá Bain & Company í Kaupmannahöfn og starfaði sem forstöðumaður tekjustýringar og verðlagningar hjá Icelandair til margra ára. Tómas er með MBA-gráðu frá MIT Sloan School of Management í Boston, MSc.-gráðu í verkfræði með áherslu á aðfangakeðjur og flugfélög sem og BSc.-gráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands.
Haft er eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair, að breytingin sé gerð vegna breyttrar stöðu eftir faraldurinn. „Við búum við breytta heimsmynd vegna áhrifa faraldursins og stöndum frammi fyrir nauðsyn þess að við leggjumst öll á eitt til að tryggja sjálfbæra framtíð. Með skýrri framtíðarsýn og stefnu Icelandair, sem studd er með nýju skipulagi félagsins, erum við vel í stakk búin til að takast á við þennan nýja veruleika.“