Landsbankinn tilkynnti í dag um vaxtabreytingar á lánum sínum og ríður þannig á vaðið fyrstur viðskiptabanka með vaxtahækkanir eftir síðustu stýrivaxtahækkun 17. nóvember en þá hækkaði Seðlabankinn vexti um 0,50 prósentustig.
Breytilegir vextir á óverðtryggðum íbúðalánum hækka um 0,35 prósentustig. Fastir vextir á óverðtryggðum íbúðalánum til 36 mánaða hækka um 0,30 prósentustig og um 0,25 prósentustig á óverðtryggðum íbúðalánum til 60 mánaða.
Vextir á verðtryggðum íbúðalánum, bæði breytilegir og fastir, verða óbreyttir.
Breytilegir vextir á óverðtryggðum íbúðalánum verða 4,20%. Lægstu fastir vextir á óverðtryggðum íbúðalánum verða 4,65%.
Kjörvextir á óverðtryggðum útlánum hækka um 0,35 prósentustig en kjörvextir á verðtryggðum útlánum verða óbreyttir. Breytilegir vextir óverðtryggðra lána vegna bíla- og tækjafjármögnunar hækka um 0,35 prósentustig. Yfirdráttarvextir hækka um 0,50 prósentustig.
Vextir á óverðtryggðum sparireikningum hækka um allt að 0,50 prósentustig, vextir á reikningum með föstum vöxtum hækka um 0,50 prósentustig og vextir almennra veltureikninga hækka um 0,05 prósentustig.