Flugfélagið Play fékk nýjustu flugvél félagsins, TF-PPA, afhenta í gær, beint frá framleiðandanum Airbus.
Vélin var afhent í verksmiðju Airbus í Hamburg í Þýskalandi í gær og var um leið skráð hjá Samgöngustofu.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Play.
Vélin er af gerðinni Airbus A320neo sem PLAY er með á leigu frá alþjóðlega flugvélaleigusalanum China Aircraft Leasing Company (CALC) en í síðustu viku náðust samningar um leigu á tveimur vélum frá CALC.
„TF-PPA var flogið frá Hamburg til Ostrava í Tékklandi eftir athöfnina í gær. Jóhann Ingi Helgason flugstjóri og Reynald Hinriksson flugmaður voru í áhöfn á fluginu til Hamburg. Vélin verður í Tékklandi fram að vori þegar hún kemur til Íslands í tæka tíð fyrir sumarvertíðina og áður en félagið hefur flug til Norður-Ameríku. Í Ostrava verður vélin færð í PLAY litina og aðlöguð að þörfum félagsins,“ segir í tilkynningunni.