Sigmar Vilhjálmsson segir að stjórnvöld hafi látið hjá líða að laga aðgerðir til stuðnings atvinnulífinu að veruleika minni og meðalstórra fyrirtækja. Athygli veki að allar aðgerðir yfirvalda hafi nýst Icelandair fullkomlega.
Í samtali í Dagmálum vekur hann athygli á þessu en ítrekar um leið að Icelandair sé mikilvægt og gott fyrirtæki. Aðgerðirnar hafi hins vegar smollið fullkomlega að þörfum þess og þá hafi ríkið einnig komið að borðinu þegar í harðbakkann sló og veitt ríkisábyrgð á skuldbindingum fyrirtækisins.
Sigmar fer ásamt fleirum fyrir stofnun nýs félags lítilla og meðalstórra fyrirtækja, Atvinnufjelagsins, en hann segir nauðsynlegt að þessi fyrirtæki fái nýjan málsvara þar sem Samtök atvinnulífsins standi fyrst og síðast vörð um hagsmuni stærstu fyrirtækja landsins.
Er hann harðorður í garð þeirra og segir SA hafa horfið í faraldrinum og ekki tekið upp hanskann fyrir litlu aðilana á markaðnum. Annað hljóð hefði komið í strokkinn ef veirufaraldurinn hefði komið illa við stærstu fyrirtækin, útflutningsfyrirtækin og stærstu skráðu fyrirtækin í smásölunni í landinu.
Sigmar fer um víðan völl í þættinum og ræðir m.a. mikilvægi þess að létta álögum af minni fyrirtækjum í landinu. Tekur hann t.d. dæmi af pylsusalanum í Laugardal sem greiðir 16.900 krónur í útvarpsgjald á ári, rétt eins og Icelandair. Segir Sigmar að nær væri að pylsusalinn greiddi 1.600 krónur til útvarpsins og Icelandair 16 milljónir.
Viðtalið við Sigmar má sjá í heild sinni hér.