Davíð Helgason hefur selt hlutabréf í hugbúnaðarfyrirtækinu Unity fyrir 55,8 milljónir dala, eða sem nemur 7,2 milljörðum króna á einni viku, en Davíð er einn af stofnendum fyrirtækisins.
Viðskiptablaðið greinir frá því að um sé að ræða stærstu sölu Davíðs í Unity frá því félagið fór á markað í september 2020. Samtals hefur hann áður selt bréf í fyrirtækinu fyrir tæplega 6,2 milljarða króna í nokkrum lotum frá maí til september.
Tímabilið sem nú um ræðir er hins vegar einungis á einni viku, 23.-30. nóvember. Í umfjöllun Viðskiptablaðsins segir að hlutabréfaverð Unity hefur hækkað nokkuð að undanförnu og var meðalsöluverð Davíðs í viðskiptunum í nóvember um 33,5% hærra en þegar hann seldi í september síðastliðnum.
Davíð hefur því selt hlutabréf sem nemur nú 104,2 milljónum dala eða um 13,5 milljarða króna frá því í maí. Hann á þó enn um 3,3% hlut í Unity að markaðsvirði 207 milljörðum króna miðað við gengi krónunnar í dag.