Alvotech opnar nýtt rannsóknar- og þróunarsetur á Íslandi

Nýtt rannsóknar- og þróunarsetur Alvotech er nú í uppbyggingu í …
Nýtt rannsóknar- og þróunarsetur Alvotech er nú í uppbyggingu í Klettagörðum 6. Ljósmynd/Aðsend

Stór hluti þess aukna fjármagns sem Alvotech mun hljóta við samruna sérhæfða yfirtökufélagsins (e. SPAC) Oaktree Acquisition Corp. II. og við skráningu hins sameinaða fyrirtækis á alþjóðlegum hlutabréfamarkaði mun fara í uppbyggingu fyrirtækisins á Íslandi. Þetta segir Róbert Wessman, stofnandi og stjórnarformaður Alvotech, í samtali við mbl.is.

„Við teljum Alvotech geta skilað miklu til samfélagsins“.

Bandaríkin langstærsti lyfjamarkaður í heimi

Fram kem­ur í til­kynn­ingu frá Al­votech vegna samrun­ans og skrán­ing­ar­inn­ar að viðskipt­in muni skila Al­votech um 450 millj­ón­um dala, eða því sem nem­ur 60 millj­örðum ís­lenskra króna, í auknu fjár­magni. Þar af eru um 250 millj­ón­ir sem koma sem inn­spýt­ing reiðufjár úr sjóðum Oaktree og yfir 150 millj­ón­ir í beinni hluta­fjáraukn­ingu frá öðrum fjár­fest­um. Er verðmat á hvern hlut í viðskipt­un­um 10 dal­ir, en miðað við það er heild­ar­virði sam­einaðs fyr­ir­tæk­is áætlað um 2,25 millj­arðar dala.

„Þetta fjármagn verður fyrst og fremst notað til að halda þróun á nýjum lyfjum áfram og koma þeim sjö lyfjum sem við erum nú þegar með í þróun á markað á næstu árum,“ segir Róbert.

Alvotech hyggur á skráningu á markað í bandarísku kauphöllinni NASDAQ og þegar sameining Alvotech og Oaktree hefur að fullu gengið í gegn munu markaðsviðskipti með hlutabréf í sameinuðu fyrirtæki fara fram undir auðkenninu ALVO á NASDAQ, en samruninn er gerður með fyrirvara um samþykki hlutahafafundar OakTree.

Róbert Wessman, forstjóri og stofnandi Alvotech.
Róbert Wessman, forstjóri og stofnandi Alvotech. Ljósmynd/Aðsend

„Eftir að hafa skoðað fáeina kosti komumst við að þeirri niðurstöðu að það væri best að skrá félagið í Bandaríkjunum enda langstærsti lyfjamarkaður í heimi með helming af allri heimsveltu. Okkur fannst eðlilegast að taka tillit til þess þegar við vorum að velja hvaða markað við ætluðum að fara inn á,“ segir Róbert inntur eftir því.

Sér­hæfð yf­ir­töku­fé­lög á borð við Oaktree hafa verið fyr­ir­ferðamik­il við skrán­ing­ar hluta­fé­laga á er­lend­um mörkuðum síðustu ár, sér­stak­lega í Banda­ríkj­un­um. Róbert segir ýmsa kosti við að skrá Alvotech á markað með þessum hætti.

„Það er fyrst og fremst áreiðanleiki, þ.e.a.s. þú getur farið í formlegar viðræður og komist að því hvernig verðmæti og verðlag félagsins liggur og hvort þú náir að klára samrunanna með viðkomandi mótaðila.“

130 milljörðum verið fjárfest í uppbygginguna

Gríðarleg uppbygging hefur verið á Alvotech síðastliðin 9 ár en um 130 milljörðum íslenskra króna hefur verið fjárfest í framleiðsluaðstöðu, þróunaraðstöðu og þau sjö lyf sem eru í þróun hjá fyrirtækinu. Þótt fyrirtækið sé að auka umsvif sín erlendis er uppbyggingu þess hér á landi síður en svo lokið, segir Róbert inntur eftir því. Til viðbótar við uppbygginguna í Vatnsmýri hefur félagið opnað vöruhús og stefnir á að opna rannsóknar- og þróunarsetur á næsta ári.

„Við erum nánast að tvöfalda þróunarsetrið okkar í Vatnsmýrinni og tókum í notkun nýtt vöruhús á Lambahagavegi 7 fyrir mánuði síðan. Á efri hæðinni þar verða rannsóknarstöfur sem verða tilbúnar í maí á næsta ári. Svo erum við að byggja stærðarinnar rannsóknar- og þróunarsetur til viðbótar á Íslandi en það á að vera klárt í upphafi næsta árs,“ segir Róbert.

Nýja rannsóknar- og þróunarsetrið í Klettagörðum verður um 3.000 fermetrar …
Nýja rannsóknar- og þróunarsetrið í Klettagörðum verður um 3.000 fermetrar að stærð. Ljósmynd/Aðsend

Þróunarsetrið í Vatnsmýri er um 27.000 fermetrar að stærð og vöruhúsið á Lambhagavegi 4.100 fm. Þá er unnið að því að standsetja húsnæði í Klettagörðum, en þar var meðal annars Iceland verslunarkeðjan og Dunkin Donuts með aðstöðu áður. Er verið að breyta því húsnæði í rannsóknar- og þróunarsetur, en stærð þess er um 3.000 fm.

Þegar fyrirtækið var stofnað árið 2012 kom aldrei neitt annað til greina en að byggja það upp á Íslandi, að sögn Róberts.

„Við teljum að Alvotech geti skilað miklu til samfélagsins, bæði í formi skatta og stöðugilda sem við munum halda áfram að fjölga á Íslandi en þau eru nú um 500 talsins. Þetta er ný atvinnugrein og mun félagið því vonandi skila töluverðu til fræðamannasamfélagsins. Við erum í samstarfi við Háskóla Íslands og þegar fram í sækir reiknum við með að Alvotech verði ein af lykilstoðum í gjaldeyrisöflum og skattgreiðslum á Íslandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK