Alvotech stefnir á skráningu í Bandaríkjunum

Róbert Wessman er forstjóri og stofnandi Alvotech.
Róbert Wessman er forstjóri og stofnandi Alvotech. Ljósmynd Sigurjón Ragnar

Líftæknifyrirtækið Alvotech hyggur á skráningu á markað í bandarísku kauphöllinni NASDAQ, en skráningin verður með samruna við sérhæfða yfirtökufélagið (e. SPAC) Oaktree Acquisition Corp. II. Gert er ráð fyrir að þegar sameining Alvotech og Oaktree hefur að fullu gengið í gegn, muni markaðsviðskipti með hlutabréf í sameinuðu fyrirtæki fara fram undir auðkenninu ALVO á NASDAQ, en samruninn er gerður með fyrirvara um samþykki hluthafafundar Oaktree.

Á að skila Alvotech 450 milljónum dala

Fram kemur í tilkynningu frá Alvotech vegna samrunans og skráningarinnar að viðskiptin muni skila Alvotech um 450 milljónum dala, eða sem nemur 60 milljörðum íslenskra króna, í auknu fjármagni. Þar af er um 250 milljónir sem koma sem innspýting reiðufjár úr sjóðum Oaktree og yfir 150 milljónir í beinni hlutafjáraukningu frá öðrum fjárfestum. Er verðmat á hvern hlut í viðskiptunum 10 dalir, en miðað við það er heildarvirði sameinaðs fyrirtækis áætlað um 2,25 milljarðar dala.

Sérhæfð yfirtökufélög hafa verið fyrirferðamikil við skráningar hlutafélaga á erlendum mörkuðum síðustu ár, sérstaklega í Bandaríkjunum. Hefur fjöldi slíkra félaga margfaldast. Er um að ræða n.k. skúffufyrirtæki rekið með það að markmiði að renna saman við efnilegt félag sem vill fá skráningu á hlutabréfamarkað án þess að fara í gegnum hið hefðbundna skráningarferli.

Meðal þeirra fjárfesta sem koma að hlutafjáraukningu Alvotech eru Suvretta Capital, Athos (sem er fjárfestingafélag Strüngmann-fjölskyldunnar), CVC Capital Partners, Temasek, Farallon Capital Management, Sculptor Capital Management, og íslenskur fjárfestahópur leiddur af Arion Banka, Landsbankanum og Arctica Finance, auk 50 milljóna dala frá núverandi hluthöfum.

Samhliða viðskiptunum munu hluthafar Alvotech skipta hlutafé sínu fyrir bréf í sameinuðu félagi, en þar á meðal eru Aztiq, sem stýrt er af Róberti Wessman, stofanda og forstjóra félagsins, Alvogen með CVC og Temasek sem leiðandi fjárfesta, Fuji Pharma lyfjafyrirtækið í Japan, YAS holdings frá Abu Dhabi, Shinhan í Suður-Kópreu Baxter healthcare SA og Athos.

Núverandi hluthafar munu áfram eiga 80%

Að því gefnu að enginn af núverandi hluthöfum Oaktree Acquisition Corp. II nýti innlausnarrétt sinn þá munu núverandi hluthafar Alvotech eiga rúmlega 80% í sameinuðu félagi, hluthafar Oaktree Acquisition Corp. II um 11%, og áðurnefndir fjárfestar, sem koma með nýtt fé inn í tengslum við sameininguna, um 7% hlut í félaginu við lokun viðskiptanna.

Alvotech er nú að byggja við hátæknisetur sitt í Vatnsmýri og verður húsnæði fyrirtækisins tvöfaldað í árslok 2022. Fram kemur í tilkynningunni að Háskóli Ísland muni í framtíðinni hafa aðgang að rannsóknarstofum fyrirtækisins. Heildarfjárfesting í fyrirtækinu frá stofnun, þar með talið í þróun, er um 1 milljarður Bandaríkjadala.

Í tilkynningunni segir að Alvotech stefni á að vera leiðandi fyrirtæki í heiminum í líftæknihliðstæðulyfjum. Fyrirtækið vinnur að þróun og framleiðslu sjö líftæknilyfja sem eru meðal annars notuð við meðhöndlun á margvíslegum sjúkdómum eins og sjálfsónæmis- og bólgusjúkdómum, krabbameini, augnsjúkdómum og beinþynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK