Áfengisgjald kemur til með að hækka um 2,5% næstu áramót samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2022. Evrópumetið í áfengissköttum verður enn okkar Íslendinga en samkvæmt tilkynningu frá Félagi atvinnurekenda eru áfengisgjöld mörg hundruð prósentustigum hærra en meðaltal annarra Evrópuríkja.
Ríkisvaldið tekur til sín verulega stóran hluta af söluverði áfengra drykkja hér á landi. Mest fær ríkið 93,6% af verðinu af vodka flöskum. Rúmlega 81% af bjórflöskum, 62,6% af léttvínsflösku og 72,2% af léttvínskassa.
Samkvæmt tilkynningu FA segir þá einnig að áfengisgjald á léttvín sé 584% hærra en meðaltal annarra Evrópuríkja. En það er hátt í sjöföld skattlagning miðað við önnur ríki álfunnar. Talan fyrir styrkt vín, til að mynda púrtvín og sérrí er 621% hærra og 345% hærra fyrir bjór.
Í greiningu FA voru ríki Austur-Evrópu, sem almennt eru með lægstu áfengisskatta álfunnar, tekin út úr myndinni. Niðurstaðan breytist þó afar lítið. Ísland er enn með langhæstu áfengisskatta álfunnar og einungis Noregur kemst með tærnar þar sem Ísland hefur hælana hvað varðar skatta á bjór.
Haft er eftir Ólafi Stephensen, framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda, í tilkynningunni að „Ekkert Evrópuríki, ekki einu sinni Noregur, leggur jafn fáránlega skatta á áfenga drykki og Ísland. Þrátt fyrir að heims- og Evrópumetin falli ár eftir ár halda áfengisskattar áfram að hækka… það hlýtur einhvers staðar og einhvern tímann að verða að segja stopp.“