„Ekki markmiðið að sópa undir sig félögum“

Ægir Már Þórisson, forstjóri Advania á Íslandi.
Ægir Már Þórisson, forstjóri Advania á Íslandi. mbl.is/Sigurður Bogi

Það sem af er ári hafa miklar breytingar orðið hjá Advania og hefur starfsmönnum samstæðunnar fjölgað úr um 1.400 í 3.500. Á sama tíma er gert ráð fyrir að velta félagsins fari úr um 76 milljörðum upp í um 150 milljarða. Þetta hefur gerst með kaupum félagsins á fimm erlendum upplýsingatæknifyrirtækjum á Norðurlöndunum og í Bretlandi. Framundan er mikil vinna við samhæfingu eininganna á Norðurlöndum.

Hefði ekki gerst án aðkomu Goldman Sachs

Í febrúar var tilkynnt að sjóður sem rek­inn er af banda­ríska risa­bank­an­um Goldm­an Sachs hafi keypt meirihluta í Advania. Ægir Már Þórisson, forstjóri Advania á Íslandi, segir í samtali við mbl.is að með kaupum Goldman Sachs hafi hugmyndin verið að styðja við stjórnendateymið og hugmyndir þeirra um að vaxa. „Þetta hefði ekki gerst án þeirra,“ segir Ægir. Segir hann kaupin á félögunum fimm vera það sem stefnt hafi verið að og muni hjálpa fyrirtækinu að ryðja veginn í vegferð þess á komandi árum.

Hefur Advania frá þessum tíma keypt upplýsingatæknifélögin Hi5 í Svíþjóð þar sem störfuðu 65 manns, danska félagið Genia með 12 starfsmenn og finnska félagið Beveric með 14 starfsmenn.

Í ágúst var svo tilkynnt um kaup á norska félaginu Visolit, en það var aðalstarfsemi sína í Noregi og Svíþjóð og samtals um 1.200 starfsmenn á 16 skrifstofum í fjórum löndum. Ægir nefnir sem dæmi að með þeim kaupum hafi starfsmannafjöldi Advania í Noregi farið úr 50 upp í 600, en Visolit hefur sérhæft sig í rekstrarþjónustu fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki í Skandinavíu. Var félagið því komið með um 2.700 starfsmenn í haust.

„Þessi kaup eru mjög strategísk

Í dag var svo tilkynnt að Advania hefði keypt breska upp­lýs­inga­tækni­fé­lagið Content+Cloud. Með því bætast 800 starfsmenn við samstæðu Advania og verða þeir sem fyrr segir um 3.500. Þá er gert ráð fyrir að sameiginleg velta félagsins verði sem nemur um 150 milljörðum íslenskra króna. Ægir segir að Content+Cloud sé sérhæft skýjaþjónustufyrirtæki og að það muni styrkja Advania mikið. „Þessi kaup eru mjög strategísk. Þetta er félag sem er komið mjög langt á leið í skýjavegferðinni,“ bætir Ægir við og bendir á að skýjalausnir séu það sem flest fyrirtæki og stofnanir séu að glíma við þessi misserin.

Aðeins 10% veltunnar í dag á Íslandi

Höfuðstöðvar Advania eru í dag í Svíþjóð og segir Ægir að félagið sé í dag alþjóðlegt upplýsingatæknifyrirtæki sem hafi ræturnar á Íslandi. Til að setja í samhengi hversu mikið félagið hefur vaxið undanfarin ár og hvernig samsetning á íslensku starfseminni á móti þeirri erlendu hefur breyst bendir Ægir á að fyrir tæplega áratughafi stærsti hluti starfsemi Advania verið á Íslandi. Á þeim tíma hafi félagið verið með skrifstofur erlendis, en stóri hlutinn var hér heima. Þannig var velta Advania á Íslandi um 10,5 milljarðar en áætlað er að hún verði um 15 milljarðar á þessu ári. Það er þó ekki nema 10% af heildarveltu samstæðunnar í dag. Á sama tíma hefur starfsmannafjöldi fyrirtækisins hér á landi haldist nokkuð jafn, eða tæplega 600.

Hjá Advania á Íslandi starfa í dag tæplega 600 manns …
Hjá Advania á Íslandi starfa í dag tæplega 600 manns en hjá samstæðunni í heild um 3.500 manns. mbl.is/Ómar Óskarsson

Spurður um frekari kaup á næstunni segir Ægir að hann geti ekki svarað fyrir það. Hins vegar sé mikil vinna framundan hjá félaginu við að samþætta reksturinn eftir öll kaupin „Alveg klárt að við þurfum að samþætta félögin á Norðurlöndunum,“ bendir Ægir sérstaklega á.

„Markmiðið er í sjálfu sér ekkert endilega að vera miklu stærri

„Markmiðið er í sjálfu sér ekkert endilega að vera miklu stærri. Það er að verða betri,“ segir Ægir spurður nánar um hugmyndina á bak við kaupin. Bætir hann við: „Það er ekki markmiðið að sópa undir sig félögum og belgja út reikninginn, þetta snýst ekki um það.“ Segir hann að öll kaupin hafi verið í samræmi við áætlun stjórnenda félagsins til að mæta auknum kröfum í tækniheiminum. „Við erum að styrkja okkur í þeirri viðleitni að geta sinnt kúnnum sem best,“ segir hann og vísar aftur til þróunar á skýjamarkaði og aukinni áherslu á netöryggismál.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK