Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar til 25 ára hefur óskað eftir því að láta af störfum sem forstjóri fyrirtækisins. Stjórn Össurar varð að ósk Jóns og hefur skipað Svein Sölvason, núverandi framkvæmdastjóra fjármálasviðs, sem forstjóra frá 1. apríl næstkomandi.
Í tilkynningu frá fyrirtækinu þakkar stjórnarformaður þess, Niels Jacobsen, Jóni fyrir „innilega gjöfult samstarf“. Hann segir framlag Jóns til uppbyggingar fyrirtækisins verði seint fullþakkað. Segir hann að undir stjórn Jóns hafi tekjurnar vaxið úr 5 milljónum bandaríkjadala í 700 milljónir og starfsmannafjöldinn hundraðfaldast. Jón hafi átt stóran þátt í því að umbreyta félaginu úr „litlu stoðtækjafyrirtæki í leiðandi alþjóðlegt heilbrigðistæknifyrirtæki.“
Sveinn Sölvason hóf störf hjá Össuri árið 2009 og hefur gegnt stöðu framkvæmdastjóra fjármálasviðs frá 2013. Niels segist þakklátur Sveini fyrir að taka verkefnið að sér og segir Svein hafa náð eftirtektarverðum árangri í störfum sínum og því vel til þess fallinn að leiða félagið inn í næsta vaxtarskeið þess.
Sveinn segist þá samkvæmt tilkynningu þakka traustið sem honum sé sýnt og hlakkar hann til þess að takast á við nýtt hlutverk innan fyrirtækisins.
“Ég óska Sveini til hamingju og hlakka til að afhenda honum keflið. Það hefur verið mér mikill heiður að gegna stöðu forstjóra Össurar í 26 ár. Ég hef notið samstarfsins við framúrskarandi starfsfólk, viðskiptavini og aðra velunnara félagsins sem hafa átt þátt í velgengninni. Ég hlakka til að fylgjast með félaginu vaxa og dafna um ókomna tíð,” segir Jón Sigurðsson, fráfarandi forstjóri Össurar.