Nefnd sem falið var að gera úttekt á reynslunni af starfi fastanefnda seðlabankans frá gildistöku nýrra laga um bankann frá ársbyrjun 2020 hefur nú skilað skýrslu sinni. Fram kemur í skýrslunni að vel hafi gengið við sameiningu Fjármálaeftirlits og Seðlabankans, en skilgreina þurfi þó betur verkefnaskiptingu milli nefnda bankans.
Fastanefndirnar sem voru til skoðunar í skýrslunni eru þrjár. Peningastefnu-, fjármálastöðugleika- og fjármálaeftirlitsnefnd. Ný lög um seðlabankann tóku gildi í ársbyrjun 2020 og þá sameinuðust einnig seðlabankinn og fjármálaeftirlitið.
Niðurstöður skýrslunar eru þá á þann veg að vel hafi gengið við sameiningu Seðlabankans og fjármálaeftirlitsins. Nefndarstarf bankans njóti samlegðarinnar. Samvinna milli sviða hafi aukist og enn frekari uppbygging sé í vændum.
Peningastefnunefnd hefur starfað í rúman áratug og hefur samkvæmt skýrslunni því áunnið sér traust. Fyrirkomulag nefndarinnar breyttist í raun ekki neitt við gildistöku laganna en fram kemur að lögin um verkaskiptingu milli bankans og nefndarinnar séu ekki alltaf nægilega skýr hvað varðar beitingu stjórntækja.
Tilkoma fjármálastöðugleikanefndar skýrir vel hvar ábyrgð liggur varðandi það að stuðla að fjármálastöðugleika, segir í skýrslunni. Bankinn og nefndirnar hafa fjölbreyttari og öflugri tæki en áður til að fylgja hlutverki sínu. Bent er á að nefndin hafi ekki sögulega sterkan grunn og það þurfi að taka inn í myndina.
Fram kemur einnig að ýmis verkefni skarist þá á milli fjármálastöðugleikanefndar og fjármálaeftirlitsnefndar. Skipting verkefnanna er að mati nefndarinnar ekki ávallt rökrétt og á því þurfi að vinna bætur.
Hvað varðar úrbætur segir í skýrslunni að helst þurfi að skýra hutverk og verkefni fjármálaeftirlitsnefndar betur og þurfi löggjafinn að beita sér í því verkefni.