Hagstofan birtir desembermælingu vísitölu neysluverðs (VNV) þriðjudaginn 21. desember. Hagfræðideild Landsbankans spáir 0,3% hækkun vísitölunnar milli mánaða. Gangi spáin eftir hækkar verðbólgan úr 4,8% í 4,9%. Er því spáð að verðbólgan nái hámarki í desember.
Verðbólga án húsnæðis hefur gengið nokkuð hratt niður að undanförnu og mældist hún 3,4% í nóvember en hún sló hæst í 4,7% í janúar. Hagsjá Landsbanka Íslands spáir því að verðbólga án húsnæðiskostnaðar verði 3,1% í desember.
„Við teljum að helsti áhrifaþáttur á verðbólguþróunina í desember verði reiknuð húsaleiga. Við spáum að reiknuð húsaleiga hækki um 0,79% milli mánaða og áhrif hennar til hækkunar verðlags verði 0,14 prósentustig,“ segir í Hagsjánni.