Kristján Einarsson hefur verið ráðinn markaðsstjóri tæknifyrirtækisins Treble Technologies sem þróar hugbúnað á sviði hljóðhermunar. Kristján mun stýra markaðsmálum og vinna að frekari vexti fyrirtækisins.
Treble Technologies er íslenskt sprotafyrirtæki sem lauk nýverið 232 milljón króna fjármögnun og er í örum vexti um þessar mundir, að því er fram kemur í tilkynningu.
Kristján starfaði áður sem verkefnastjóri markaðsmála hjá Origo. Þar sá hann um markaðsaðgerðir og viðburði, og leiddi nú síðast innleiðingu á CRM kerfinu HubSpot fyrir Origo.
Kristján er með BS gráðu í sálfræði og MS í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum frá Háskóla Íslands.
Finnur Pind framkvæmdarstjóri Treble segist spenntur að fá öflugan aðila inn til að stýra markaðsmálunum og með inn í viðskiptaþróunina: „Við erum mjög spennt að fá Kristján til liðs við okkur og vitum að hann hefur verið að gera flotta hluti hjá Origo. Framundan eru mörg tækifæri fyrir Treble, þar sem tæknin okkar nýtist við lausn fjölbreyttra vandamála sem snúa að hljóði, og því mikilvægt fyrir okkur að fá réttan aðila í að stýra markaðsmálum hjá okkur og koma vörum okkar á kortið.“