Nýir verslunarkjarnar gætu orðið til á höfuðborgarsvæðinu á næstu árum, og margir þeirra sem fyrir eru styrkst í sessi, ef spár um íbúafjölgun munu ganga eftir.
Samkvæmt háspá í þróunaráætlun Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) áttu um 240 þúsund manns að búa á svæðinu um komandi áramót. Eins og lesa má úr töflunni hér til hliðar var þeim íbúafjölda náð við lok 3. fjórðungs í ár og er fjölgunin umfram háspána.
Spáin sem hér er vísað til nær til áranna 2020 til 2024. Að sögn Jóns Kjartans Ágústssonar, svæðisskipulagsstjóra SSH, er spáin gerð á fjögurra ára fresti. Næsta spá verður því birt á síðari hluta ársins 2024.
Jón Kjartan segir kórónuveirufaraldurinn hafa verið hafinn þegar núverandi spá var gerð og að það hafi haft áhrif á vænta íbúafjölgun. Meðal annars hafi verið reiknað með meiri brottflutningi frá landinu en raunin varð í faraldrinum.
En eins og rakið hefur verið í Morgunblaðinu hafa tæplega fimm þúsund fleiri erlendir ríkisborgarar flutt til landsins en frá því frá ársbyrjun 2000 og tæplega 1.400 fleiri íslenskir ríkisborgarar flutt til landsins en frá því á sama tímabili.
Þessir búferlaflutningar hafa haft áhrif á íbúafjölgun á höfuðborgarsvæðinu en ætla verður að margir hinna aðfluttu hafi sest þar að frá ársbyrjun 2020.
Samkvæmt áðurnefndri háspá SSH munu um 250 þúsund manns búa á höfuðborgarsvæðinu í ársbyrjun 2024, eða eftir rúmlega tvö ár. Það yrði fjölgun um tæplega 17 þúsund íbúa frá ársbyrjun 2020 en til samanburðar búa nú ríflega 13 þúsund manns í Mosfellsbæ og ríflega 18 þúsund í Garðabæ.
Kortið hér fyrir ofan er unnið upp úr þróunaráætlun SSH fyrir árin 2020 til 2024 en dökkbláu og ljósbláu reitirnir sýna fyrirhuguð uppbyggingarsvæði íbúða.
Nánar er fjallað um málið í ViðskiptaMogganum.