Hugbúnaðarfyrirtækið Spectaflow hleypti nýrri hótellausn sinni formlega af stokkunum síðasta sumar og nú þegar eru eitt hundrað hótel í fimm löndum búin að innleiða búnaðinn. Þeirra á meðal er íslenska hótelkeðjan Keahotels.
„Vandinn sem við erum að leysa fyrir hótelin er allt sem snýr að skipulagi á vinnu fólks, öll þessi teymisvinna. Það snýr einkum að þrifum, herbergisumsjón og viðhaldi fasteigna. Þá er hægt að leysa alla verkstjórn og halda utan um vaktaplan. Ennfremur geta gestir tengst inn á verkstýringuna og sent inn beiðnir,“ segir Pétur Orri Sæmundsen, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, í samtali við ViðskiptaMoggann.
„Ef hótelið á að vera gott þarf teymisvinnan að vera tipp topp,“ bætir hann við.
Spurður um uppruna hugmyndarinnar segir Pétur að upphaflega hafi Spectaflow ætlað að gera hugbúnaðarlausn fyrir alla sem reka fasteignir, hvort sem það væru fasteignafélög, hótel, stofnanir eða aðrir.
„Við fundum sniðuga aðferð til að nota snjallsímann til að stjórna viðhaldsmálum. Að fanga verkefnin með einföldum hætti og koma þeim í farveg. En þegar við innleiddum lausnina á einu hóteli með þrjátíu starfsmönnum þá áttuðum við okkur á að fólkið notaði forritið einungis tvisvar til þrisvar á mánuði, sem var of lítið. Það þýddi að lausnin var í raun jaðarlausn og við fórum í kjölfarið að skoða hvernig við gætum búið til meira virði og aukið notkunina. Við grófumst fyrir um helstu úrlausnarefnin og þá kom í ljós að þau snúa mikið til að því að ná yfirsýn yfir stöðu verkefna,“ segir Pétur.
Á sama tíma og Spectaflow þrengdi fókusinn með þessum hætti var ákveðið að leggja áherslu á hótelmarkaðinn eingöngu.
Um áskoranirnar í þjónustunni við hótelin nefnir Pétur að þau hafi mjög ólíkar þrifareglur svo dæmi sé tekið. Sum þrífi á hverjum degi, önnur sjaldnar og enn önnur aðeins í lok dvalar.
„Við erum búin að vera að reyna að ná utan um þetta í okkar vöruþróun sl. þrjú ár. Það má segja að því þroskaðri sem viðskiptavinurinn er því fágaðri verði lausnin okkar.“
Eitt af því sem kerfið býður upp á er yfirlit í rauntíma. Þannig sjá til dæmis allir starfsmenn á öllum tímum hvaða herbergi er búið að þrífa og hver ekki. Það eina sem Spectaflow þarfnast er tenging við bókunarkerfi hótelsins. „Með tengingu við bókunarkerfið sjáum við hve margir gestir eru á hótelinu, hvað þeir eru búnir að dvelja lengi o.s.frv.“
Nánar er fjallað um málið í ViðskiptaMogganum.