N1 hefur ákveðið að hætta innflutningi á forblandaðri lífdísilolíu frá Noregi og er að skoða aðra lausn. Ástæðan er ábendingar viðskiptavina um gæði olíunnar.
Margir eigendur dísilbíla hafa lent í vandræðum vegna óhreininda sem setjast í olíusíur og hafa í einhverjum tilvikum skemmt spíssa við vélar bílanna. Hefur það kallað á dýrar viðgerðir. Vandræðin voru sérstaklega áberandi í um mánuð í haust og voru ekki bundin við tiltekin olíufélög eða bensínstöðvar enda flytja öll olíufélögin inn þessa sömu olíu. Eitt ferðaþjónustufyrirtæki varð fyrir 6-7 milljóna króna aukakostnaði vegna endurtekinna bilana á þremur bílum.
Olíufélögunum er gert að blanda dísilolíuna með jurtaolíu eða á annan hátt til að draga úr útblæstri vegna notkunar jarðefnaeldsneytis.
Rannsökuð eru sýni úr öllum olíuförmum sem koma til landsins og hefur efnið sem sest í síurnar ekki fundist í þeim. Heldur ekki í tönkum olíufélaganna. Rannsóknarstofa olíufélaganna hefur þó staðfest að í óhreinindum sem sest hafa í olíusíurnar er „steryl glucoside“, efni sem meðal annars er að finna í jurtaolíu og er þekkt vandamál í dísilbílum í Evrópu. Þess vegna hafa menn beint sjónum að íblönduninni.