Icelandair hefur kynnt til leiks nýjan áfangastað í Bandaríkjunum, Raleigh-Durham í Norður-Karólínu. Flug til borgarinnar munu hefjast á næsta ári.
Þetta kemur fram í tilkynningu Icelandair.
Í Raleigh, sem er höfuðborg Norður-Karólínu, búa rúmlega 10 milljónir manna. Þangað mun Icelandair bjóða upp á flugferðir fjórum sinnum í viku á næsta ári á tímabilinu 12. maí til 30. október.
„Icelandair mun bjóða tíðar ferðir til og frá Íslandi og öflugar tengingar áfram til áfangastaða félagsins í Evrópu, en frá Raleigh flugvelli eru ekki margar beinar tengingar við Evrópu í dag. Góðar tengingar eru frá Raleigh áfram til fjölda áfangastaða í Bandaríkjunum,“ segir í tilkynningunni.
Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair segir Raleigh spennandi viðbót við leiðakerfi flugfélagsins. Telur hann Norður-Karólínu hafa margt upp á að bjóða og að háskólasamfélagið og viðskiptalífið muni njóta góðs af tengingu við borgina.
„Undanfarin ár höfum við lagt áherslu á að bæta við nýjum áfangastöðum vestanhafs sem hafa litlar tengingar við Evrópu fyrir. Þannig getur félagið bætt mjög þjónustu frá þessum svæðum til Evrópu og nýtt þau tækifæri sem liggja í öflugu leiðakerfi okkar og stuttum tengitíma á Keflavíkurflugvelli,“ er haft eftir Boga í tilkynningunni.
Fyrr í dag var greint frá því að Play myndi hefja Ameríkuflug næsta sumar. Greindi félagið frá því að fyrstu tveir áfangastaðirnir yrðu Boston og Washington D.C.