Í hádeginu hófst sala PLAY á flugi til Bandaríkjanna. Birgir Jónsson, forstjóri PLAY, segir miklu máli skipta fyrir félagið að geta nú boðið upp á flug til Bandaríkjanna. Hann segir eftirspurnina jafnframt mikla.
„Eftirspurnin eftir flugi til og frá Íslandi er ekki nógu mikil. Því er ákveðin forsenda fyrir því að geta rekið flugfélag á Íslandi að bjóða upp á flug til Bandaríkjanna,“ segir Birgir í samtali við mbl.is.
Spurður hvort vænta megi fleiri áfangastaða í Bandaríkjunum segir Birgir klárt mál að þeim verði fjölgað en það verði gert hægt og örugglega.
„Við munum alveg pottþétt bæta við áfangastöðum í Bandaríkjunum en við erum að gera þetta allt mjög hægt og örugglega, sérstaklega vegna Covid-19. Við viljum hafa vaðið fyrir neðan okkur, við viljum ekki vaxa of hratt. Við tökum lítil en örugg skref.
Við erum að horfa á austurströndina og Kanada. Við ætlum ekki á vesturströndina eins og WOW air gerði. Þetta snýst um að get nýtt vélarnar innan 24 tíma og ná þeim aftur til Íslands til að geta tekið Evrópulegg.“
Heimasíða PLAY hrundi eftir að opnað var fyrir sölu á flugunum.
„Það var bara svo gríðarlega mikið álag á henni að hún hrundi. Við finnum fyrir því að fólk er mjög spennt fyrir þessu, enda erum við að bjóða góð verð og ætlum okkur alltaf að vera ódýrasti kosturinn.“