Rekstrartap ferðaþjónustunnar fyrir skatta á síðasta ári var um 105 milljarðar samkvæmt ársreikningagögnum Hagstofunnar um fyrirtæki sem eru í einkennandi greinum ferðaþjónustunnar. Er þetta þar með versta ár ferðaþjónustunnar hér á landi. Bent er á þetta í Hagsjá Landsbankans.
Til samanburðar var hagnaður greinarinnar árið 2019 um 3,2 milljarðar, en umskiptin í afkomu má að mestu rekja til mikils tekjusamdráttar vegna faraldursins. Námu tekjur greinarinnar 627,3 milljörðum árið 2019, en voru aðeins 278,2 milljarðar árið 2020. Nemur þetta 56% samdrætti milli ára.
Milli 2019 og 2020 varð einnig mikill samdráttur í rekstrarkostnaði fyrirtækja í ferðaþjónustu. Vöru- og hráefnisnotkun dróst saman um 58%, launakostnaður lækkaði um 38% og annar rekstrarkostnaður um 46%.
Þá er í Hagsjánni bent á að launþegum í greininni hafi fækkað um 31% milli ára, eða úr 28 þúsund í rúmlega 19 þúsund.