Icelandair skiptir um ham

Útlit véla Icelandair mun taka miklum beytingum.
Útlit véla Icelandair mun taka miklum beytingum. Tölvuteikning/Icelandair Group

Í byrjun næsta árs mun útlit flugvélaflota Icelandair taka að breytast mjög frá því sem fólk á nú að venjast. Þetta staðfestir Gísli S. Brynjólfsson, forstöðumaður markaðsmála hjá fyrirtækinu. Hann hefur frá árinu 2019 leitt vinnu sem miðað hefur að því að endurskoða og bæta vörumerki Icelandair sem án nokkurs vafa er í hópi hinna allra þekktustu meðal íslenskra fyrirtækja, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

Gyllti liturinn sem verið hefur ráðandi í öllu markaðsefni fyrirtækisins, ásamt bláum og hvítum frá árinu 2006, mun nú hverfa á braut og þess í stað verður meiri áhersla lögð á nokkuð fjölbreytta litaflóru sem Gísli segir að sé sótt í íslenska náttúru, ekki síst fjölskrúðug norðurljósin. „Við teljum að sú nálgun undirstriki þann fjölbreytileika sem Ísland og íslenskt samfélag stendur fyrir. Við unnum einnig greiningu á því hvar flugfélög staðsetja sig á litakortinu og flest eru annaðhvort rauð eða blá. Algengara er að lággjaldafélögin séu í rauðu en hin í bláu. Með því að nýta fleiri liti gerum við okkur kleift að draga okkur út úr hópnum og vekja verðskuldaða athygli.“

Bendir Gísli á að það verði ekki síst gert í stélmálningu vélanna. Stélin verði öll prýdd hinu einfaldaða nýja merki sem sé hvítt á bláum grunni en að aftan við merkið komi svo litarönd sem verði mismunandi eftir vélum.

„Við stefnum á að nota um það bil sex liti á vélunum og þetta verður skemmtilegt, ekki síst þar sem margar vélar koma saman. Einnig sjáum við fyrir okkur að tengifarþegar veiti því athygli þegar þeir skipta úr til dæmis bleikri vél í græna.“

Það eru ekki aðeins vélarnar sem skipta um búning. Markaðsefnið gerir það í meginatriðum. Ekki síst til að mæta breyttri miðlun síðustu ára.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK