Það styttist til jóla og flestir búnir að kaupa megnið af jólagjöfunum. Leikföng eru sívinsæl og Daði Ingólfsson, vörurstjóri leikfanga hjá Hagkaup sat fyrir svörum og ljóstraði upp hver heitustu trendin væru fyrir jólin í ár.
Daði sagði að sala á leikföngum væri búin að vera mikil sem komi svo sem ekki á óvart, þó merki hann ákveðnar breytingar.
„Leikföng eru alltaf vinsælar jólagjafir fyrir börn á öllum aldri. Hagkaup er með mjög breitt úrval af leikföngum allt frá einföldu þroskadóti fyrir þau allra yngstu til krefjandi LEGO geimskipa fyrir þau elstu,” segir Daði.
Aðspurður hvaða leikföng væru vinsælust segir hann að það sé mikill áhugi á spilum í ár. Kviss spilin hafa slegið í gegn sem og Evrópu spurningarspilið eftir Stefán Pálsson. Einnig er spilið Micro Macro mjög vinsælt enda hefur það unnið til fjölda erlendra verðlauna. NERF byssurnar hafa líka verið mjög vinsælar enda einstaklega vönduð leikföng.
LEGO og Playmo alltaf langvinsælast
„LEGO og Playmo eru alltaf vinsælustu leikföngin og miðað við söluna fram til þessa þá virðist það líka verða þetta árið. Í LEGO er City Stuntz, Friends, Harry Potter og Technic langvinsælast fyrir eldri börnin og fyrir þau yngstu Duplo kubbarnir. City Action er vinsælasta Playmo settið fyrir eldri börnin en fyrir þau yngri er það nýtt sett sem kallast Novelmore,” segir Daði.
Daði segir einnig mjög vinsælt að gefa Píluvörur frá Bulls. Fyrir eldri börn er vinsælt að kaupa hefðbundið píluspjald og pílur en fyrir yngri eru sérstök segulspjöld með sértilgerðum pílum. Einnig selst vel af pílu aukahlutum eins og töskur, mottur, vegghlífar og fleira.
Skapandi og umhverfisvæn leikföng
„Föndurvörur hafa aldrei verið jafn vinsælar og fyrir þessi jólin. Við erum með mjög mikið úrval af skapandi leikföngum og má til dæmis nefna Play-Doh leirinn sem að litlir fingur hreinlega elska. Við sjáum líka aukinn áhuga á umhverfisvænni leikföngum eins og viðarleikföngum og hefur salan á þeim vörum aukist um 500% á milli ára,” segir Daði að lokum.