Eins og segir í upplýsingum frá Nasdaq munu aðilarnir þrír standa að kynningunum eitt eða saman. Markmiðið er að veita almenningi tæki og tól til að taka upplýstar ákvarðanir um sparnað sinn og fjárfestingar.
Arnaldur Þór Guðmundsson formaður Ungra fjárfesta segir í samtali við ViðskiptaMoggann að félagið vilji leggja áherslu á að fólk fái dýpri skilning á virði fyrirtækja. Hann nefnir sem dæmi að Tesla og Bitcoin séu áberandi í umræðunni en fáir átti sig á hvort núverandi verð sé gott eða slæmt.
Arnaldur segir að hingað til hafi áhugi á hlutabréfafjárfestingum verið meiri hjá strákum en stelpum og hann fagnar því aðkomu Ungra athafnakvenna inn í samstarfið.
Andrea Gunnarsdóttir, formaður Ungra athafnakvenna, kveðst hæstánægð með samstarfið við Nasdaq. Hún segir í samtali við ViðskiptaMoggann að félagið muni halda ótrautt áfram að varpa ljósi á stöðu kvenna innan fjármálageirans. Brýnt sé að konur fari fyrir fjármagni í meira mæli. „Það er mikilvægt að ungar konur hafi þekkingu, tæki og tól til að taka upplýstar ákvarðanir um fjárfestingar. Við viljum leggja okkar að mörkum þar sem fjárhagsleg valdefling er ómissandi liður í að uppræta kynjamisrétti.“
Lestu meira um málið í ViðskiptaMoggganum í dag.