Hótel hérlendis hafa verið ágætlega bókuð núna yfir jólatímann en þó hefur eitthvað verið um afbókanir. Bókanir fyrir næsta ár eru ekki komnar á flug. Þetta segir Kristófer Oliversson, framkvæmdastjóri Center hotels og formaður FHG, félags fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu, í samtali við mbl.is.
„Jólin hafa gengið ljómandi vel til þessa. Það hefur verið þokkalega bókað en þó ekki fullt, nóg er til af lausum herbergjum. Það sem hrellir okkur þó helst er óttinn við að starfsfólkið okkar lendi í sóttkví.“
Í fyrra á sama tíma voru nánast engir ferðamenn á landinu og voru flest hótel lokuð þar sem harðar sóttvarnaaðgerðir voru í gildi.
„Þetta er auðvitað allt annað en í fyrra. Þá var að mestu lokað vegna Covid og við vorum einungis með eitt hótel opið. Það hefur þó aðeins verið um afbókanir hjá okkur vegna sóttvarnaaðgerða og aukningar á smitum. Í kringum 10-15% gesta hafa afbókað eða fært bókun sína t.d. fram í byrjun næsta árs.“
Þá segir Kristófer bókanir fyrir fyrri hluta næsta árs ekki vera með besta móti.
„Við finnum fyrir því að bókanir eru ekki með sama hætti fyrri hluta næsta árs eins og þegar best lét. Við eigum enn talsvert í land með að ná vopnum okkar aftur.“