Félag atvinnurekenda kallar eftir því að íslensk stjórnvöld fari að ræða breytingu á sóttvarnaaðgerðum, annars vegar í ljósi þess að Ómíkron-afbrigði veirunnar virðist vægara og hins vegar vegna góðrar stöðu landsins hvað varðar bólusetningar.
Þetta kemur fram í færslu á facebooksíðu félagsins.
„Að óbreyttu stefnir í stórkostleg vandræði fyrir atvinnulífið með einangrun og sóttkví þúsunda manna,“ segir í færslunni.
Þar er enn fremur bent á fregnir frá Bandaríkjunum þar sem ákveðið hefur verið að stytta einangrunartíma einkennalausra niður í fimm daga og að þeir sem þar þiggja örvunarskammt sleppi við sóttkví en þurfi aðeins að bera grímu þess í stað.
„Eins og áður segir stefnir í gífurleg vandræði hjá fjölda fyrirtækja vegna þess að starfsfólk er skikkað í einangrun og sóttkví. Stjórnvöld hljóta að þurfa að endurmeta stöðuna og skoða hvernig beita megi meðalhófi þannig að atvinnulífið lamist ekki að óþörfu vegna þeirrar smitbylgju sem nú rís.“