Eignarhaldsfélagið Kringlueignir ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 15. desember síðastliðinn, en félagið var í eigu Björns Inga Hrafnssonar, útgefanda fjölmiðlafyrirtækisins Pressunnar.
Tilgangur félagsins var kaup, sala og rekstur, rekstur fasteigna, lánastarfsemi og annar skyldur rekstur.
Í ársreikningi Kringlueigna ehf. fyrir árið 2015 kom fram að eigið fé var jákvætt um 465.800 krónur. Þá var tap félagsins það árið 16.400 krónur og árið þar á undan 17.800 krónur.
Í Lögbirtingablaðinu er skorað á alla þá sem telja til skulda eða annarra réttinda á hendur búinu eða eigna í umráðum þess að lýsa yfir kröfum sínum fyrir skiptastjóra innan tveggja mánaða. Þá verður haldinn skiptafundur þar sem fjallað verður um lýstar kröfur og ráðstöfun á eignum og réttindum búsins.