Samkvæmt svörum Byggðastofnunar við fyrirspurn Félags atvinnurekenda tapaði Íslandspóstur samtals 1.258 milljónum króna á samkeppnisrekstri innan alþjónustu í fyrra. Afkoma þess starfsþáttar hafi verið neikvæð um tæpar 749 milljónir og Byggðastofnun staðfest að við það bætist viðbótarframlag ríkisins upp á 509 milljónir.
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir þetta athyglisvert, ekki síst í ljósi þess að vegna hækkana á gjaldskrá erlendra sendinga í júní 2019 megi ætla að tap af þeim hafi verið hverfandi í fyrra.
Að sama skapi megi ætla að tap hafi orðið af samkeppnisrekstri Póstsins í ár eða þar til gjaldskrá fyrir pakkasendingar var hækkuð 1. nóvember sl. Sú undirverðlagning hafi bitnað hart á einkafyrirtækjum á póstmarkaði.
Ólafur rifjar upp að Pósturinn hafi tapað 1.023 milljónum á samkeppni innan alþjónustu árið 2019, að meðtöldu um 500 milljóna tapi af erlendum pakkasendingum.
Þá hafi orðið 1.164 milljóna króna tap af samkeppni innan alþjónustu árið 2018 og þar af 818 milljóna tap vegna erlendra sendinga.
Samanlagt nemi tapið af alþjónustunni ríflega 3.400 milljónum króna árin 2018-2020.
Það sé skýrt brot á póstlögum enda beri gjaldskrá alþjónustu að endurspegla raunkostnað, að viðbættum hæfilegum hagnaði, samanber 3. mgr. 17. greinar póstlaganna.
Lestu meira um málið í ViðskiptaMogganum í dag.