Ávöxtunin nær tveggja stafa tölu

Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins.
Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins. mbl.is/Árni Sæberg

Eignamarkaðir hafa verið á mikilli siglingu víða um heim nær allt þetta ár. Íslenska hagkerfið er þar engin undantekning. Flest bendir til að það hafi verið íslenskum lífeyrissjóðum hagfellt og nýjustu tölur Seðlabanka Íslands sem birtir yfirlit yfir heildareignir þeirra sýna að á fyrstu 10 mánuðum ársins hafi þær aukist um rúma 860 milljarða króna. Jafngildir það 15% aukningu í krónum talið.

Enginn lífeyrissjóður hefur birt yfirlit yfir heildarafkomu sína 2021, enda lifa enn tæpir tveir dagar af árinu. Hins vegar eru nokkrir sjóðir sem birta því sem næst rauntímagögn um stöðu fjárfestinga sinna. Það á við um Almenna lífeyrissjóðinn og Frjálsa. Morgunblaðið hefur tekið saman tölur sem varpa ljósi á ávöxtun þessara sjóða á tólf mánaða tímabili, frá Þorláksmessu í fyrra og til sama dags í liðinni viku.

Þar má sjá að nafnávöxtun fjárfestingarleiðarinnar „Frjálsi Áhætta“ nemur 21,9% á tímabilinu en það jafngildir 16,4% raunávöxtun. „Ævisafn I“ hjá Almenna lífeyrissjóðnum skilar að sama skapi 19,9% nafnávöxtun yfir tímabilið eða 14,5% raunávöxtun.

Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna, segir ávöxtun lífeyrissjóða hafa reynst afar hagfellda á árinu sem er að líða, rétt eins og síðustu ár. Því ráði ýmsar aðstæður í alþjóðahagkerfinu en ekki síst afar lágt vaxtastig.

„Ég er bjartsýnn á framhaldið en vara þó við því að með þessari miklu ávöxtun erum við að einhverju leyti að ganga á ávöxtun framtíðarinnar. Það er ekki ólíklegt að ávöxtun komandi ára verði undir sögulegu meðaltali.“

Arnaldur Loftsson, framkvæmdastjóri Frjálsa, bendir á að hlutabréfamarkaðir hafi sótt mjög í sig veðrið.

„Innlendi hlutabréfamarkaðurinn var mjög kraftmikill og sá eignaflokkur sem skilaði mestri ávöxtun. Úrvalsvísitala hlutabréfa hækkaði um 36,9% síðustu tólf mánuði.“

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK