Fyrir hádegi í dag var seinni af tveimur olíubirgðatönkum felldur á lóð Hringrásar við Álhellu 1 nær Straumsvík, en á Þorláksmessu var fyrri tankurinn felldur.
Um er að ræða lóð sem heitir Álhella 1 og gegndi lengi vel hlutverki varaflsstöðvar fyrir álverið í Straumsvík. Í stað tankanna mun rísa nýmóðins brotajárnsendurvinnslustöð, sú fyrsta af sínum toga hér á landi.
Tætarinn sem um ræðir mun vera kleift að tæta heilu bílflökin í sig og því ljóst að hinn nýfelldi tankur hefði vel komist í endurvinnslu þar á bæ, væri stöðin tilbúin.
„Það hefði verið mjög flott [að endurvinna tankinn þarna], en við þurfum að koma járninu í burtu af svæðinu áður en við getum byrjað að byggja þarna aftur,“ segir Bjarni Viðarsson hjá Hringrás. Þá geti brotajárnsvinnslan hafist af fullum krafti.
„Það kemur bara út kurl hinum megin. Ef það eru einhver óhreinindi í þessu þá flokkar vélin það,“ segir hann en hægt er að setja bíla í heilu lagi
Spurður hvort vél af þessum toga sé þegar í notkun hér á landi svarar hann að þegar séu til gamlar vélar en þessi sé fyrsta nýmóðins-vélin sem fylgir öllum nýjustu öryggis-, hávaða- og mengunarstöðlum, til að nefna nokkra.
„Það er verið að fara alla leið í þessu.“