Árið 2021 hefur verið bæði annasamt og viðburðaríkt í Kauphöll Íslands og segir Magnús Harðarson, forstjóri Nasdaq Iceland, að erfitt sé nefna eitthvað eitt sem staðið hafi upp úr.
„Á meðal hápunkta ársins eru auðvitað fjórar nýskráningar fyrirtækja í Kauphöllina og frábærlega vel heppnuð hlutafjárútboð. Nægir þar að nefna risaútboð Íslandsbanka snemma í sumar,“ segir Magnús.
Það sem Magnús telur einna markverðast á árinu er aukin virkni, sem sjáist best á því að hlutabréfaviðskipti jukust um 75% frá árinu á undan.
„Það sem mér finnst bera hæst er ákveðin vitundarvakning hjá mismunandi hópum og almenningi sem er að koma gríðarlega sterkur inn sem þátttakandi á markaðnum. Ég held að þessi aukna virkni muni þjóna almenningi vel í framtíðinni, því maður finnur samhliða fyrir auknum áhuga fyrirtækja á að skrá sig. Það skiptir fyrirtækin miklu máli að finna að hlutabréfamarkaðurinn sé orðinn alvöruvalkostur í fjármögnun. Þarna er það þátttaka almennings sem skiptir miklu máli.“
Með þessu á Magnús við að jákvæð hringrás skapist með virkari þátttöku almennings. Með henni kalli almenningur fram fleiri fjárfestingarkosti fyrir sjálfan sig.
Annað sem Magnús nefnir er hve umræðan um hlutabréfamarkaðinn er orðin jákvæð. „Þetta kemur fram til dæmis í stjórnmálunum og því sem stjórnvöld hafa gert nú þegar og eru með á takteinum.“
Nefnir hann þar skattalega meðferð hlutabréfa sem sé orðin til jafns á við skattlagningu vaxtatekna og aukið frítekjumark.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út 31. desember.