Launagreiðendum á Íslandi fjölgaði um 6,5% á tólf mánaða tímabili, frá nóvember 2020 til nóvember 2021.
Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands.
15.568 launagreiðendur voru í viðskiptahagkerfinu í nóvember 2021 sem er fjölgun um 949 (+6,5%) frá nóvember 2020 og fjölgun um 677 (+4,5%) frá nóvember 2019.
Frá nóvember 2019 hefur launagreiðendum fækkað um 66 (-10,3%) í rekstri gististaða og fjölgað um 50 (+7,9%) í veitingarekstri.
Frá árinu 2018 til 2019 fækkaði nýskráningum hluta- og einkahlutafélaga úr 2.307 niður í 2.201 en fjölgaði svo aftur upp í 2.487 árið 2020. Fjöldi nýskráninga hluta- og einkahlutafélaga árið 2021 liggur ekki fyrir.
Staðgreiðsluskyld launasumma lækkaði um 0,3% í október 2021 frá fyrri mánuði en hækkaði um 14,7% frá október 2020. Breytingin á milli ára var mismikil eftir atvinnugreinum. Vakin er athygli á því að greiðslur eru ekki verðlagsleiðréttar.
Þá voru alls 765 fyrirtæki skráð gjaldþrota árið 2020 sem er fækkun um 41 frá árinu á undan. Fjöldi þeirra fyrirtækja sem skráð voru gjaldþrota árið 2021 liggur ekki fyrir.