Útibú sænska húsgagnarisans IKEA í Bretlandi munu ekki lengur gefa óbólusettum starfsmönnum sínum launað veikindaleyfi ef þeir verða að fara í einangrun vegna kórónuveirunnar.
Forsvarsmenn IKEA viðurkenna að með þessu sé verið að taka ögn þungt í árinni en einungis sé verið að reyna að bregðast við breyttum aðstæðum. Mikil fjarvera starfsfólks vegna faraldursins og hækkandi kostnaður á aðföngum hafa gert reksturinn erfiðan.
Í frétt BBC um málið segir að starfsmenn IKEA í Bretlandi eigi þó enn rétt á lögbundnu veikindaleyfi sem gefur þó aðeins 96 pund. Meðallaun starfsmanna fyrirtækisins á viku er um 400-450 pund.
Í yfirlýsingu frá IKEA í Bretlandi, þar sem um 10 þúsund manns starfa, segir að fullbólusettir starfsmenn fái að fullu greitt fyrir fjarveru sína úr vinnu ef þeir þurfa í sóttkví eða einangrun.