Berglind Rós Guðmundsdóttir, innkaupastjóri raftækjaverslunarinnar ELKO, segir í samtali við ViðskiptaMoggann að mikil aukning hafi orðið í sölu á hársnyrtitækjum í verslunum ELKO í faraldrinum. „Það varð mikil aukning í sölu á hársnyrtivörum hjá okkur frá árslokum 2019 og út árið 2021 og við erum einnig að sjá að það er verið að kaupa dýrari vörur í þessum flokki,“ segir Berglind. Hún segir að salan hafi sérstaklega tekið kipp þá mánuði þar sem miklar samkomutakmarkanir hafi verið í gildi og lokað var á hársnyrtistofum.
Andri Týr Kristleifsson, eigandi rakarastofunnar Herramanna og formaður Meistarafélags hársnyrta, segist ekki hafa orðið sérstaklega mikið var við að fólk sé farið að klippa sig meira heima fyrir, en þó sé hársnyrting að verða tískufyrirbæri hjá ungu fólki. „Maður sér það á Instagram að fólk er að prófa sig áfram. Til dæmis verður maður í auknum mæli var við það hjá ungum mönnum.“
Hann segir að þessi tilraunamennska sé þó því miður ekki að skila sér í aukinni aðsókn í atvinnugreinina. Enn halli þar á karlpeninginn, þó vissulega hafi orðið aukning síðustu misseri.
Lestu meira um málið í ViðskiptaMogganum í dag.