Arion banki og PCC hafa undirritað viljayfirlýsingu varðandi möguleg kaup PCC á kísilverksmiðjunni í Helguvík. Þar sem um viljayfirlýsingu er að ræða er á þessum tímapunkti óvíst hvort af kaupunum verði.
Þetta kemur fram í svari Arion banka við fyrirspurn mbl.is, en Kjarninn greindi fyrst frá viljayfirlýsingunni.
„Arion banki hefur um nokkurt skeið kannað ýmsa möguleika varðandi framtíð kísilverksmiðjunnar í Helguvík,“ segir í svarinu.
„Bankinn hefur haft það markmið að annað hvort finna hæfa aðila með viðurkennda reynslu af starfsemi kísilvera til að taka við starfsemi kísilversins eða finna aðrar lausn sem þá fæli ekki í sér að starfsemi hæfist á ný í kísilverinu.“
Kísilverinu var lokað 2017 vegna mengunar. Núverandi bæjarstjórn er andvíg endurræsingu. Þótt ráðist verði í umfangsmiklar endurbætur á aðstöðu og rekstri kísilversins í Helguvík verður áfram óvissa um losun rokgjarnra lífrænna efna og áhrif þeirra á loftgæði, að mati Skipulagsstofnunar.