Stefnir í 7,1 milljarðs hagnað Íslandsbanka

Hagnaður Íslandsbanka á fjórða ársfjórðungi stefnir í að verða 7,1 milljarður. Þetta kemur fram í jákvæðri afkomuviðvörun sem bankinn sendi frá sér í dag. Miðað við þessa niðurstöðu verður arðsemi eigin fjár bankans 14,2% á ársgrundvelli.

Fram kemur í tilkynningunni að greiningaraðilar hafi spáð 5 milljarða hagnaði á ársfjórðungnum og 9,9% arðsemi eiginfjár. Því sé afkoman töluvert umfram arðsemismarkmið bankans og spár greiningaraðila, en til samanburðar var hagnaður bankans á sama tíma árið 2020 3,5 milljarðar og arðsemin 7,6%.

Samkvæmt tilkynningunni stefnir í að tekjur bankans á fjórðungnum verði 13,1 milljarður, sem er 8,8% aukning milli ára og að rekstrarkostnaður verði um 6,3 milljarðar, eða 0,3 milljörðum lægri en á sama tíma í fyrra.

Hækka mat vegna betri horfa í ferðaþjónustu

Frávik frá áliti greinenda skýrast af stærstum hluta af 1,1 milljarðs tekjufærslu vegna aflagðrar starfsemi og vegna jákvæðrar virðisrýrnunar sem nam um 0,6 milljörðum á fjórðungnum og er að mestu tilkomin vegna mats bankans um heldur betri horfur í íslenskri ferðaþjónustu. Til samanburðar færði bankinn um 1,8 milljarða til gjalda í virðisrýrnun á fjórða ársfjórðungi 2020 sem tengdist að mestu leyti þeirri óvissu sem uppi var vegna COVID-19 faraldursins á þeim tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK