Jóhannes þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir samtökin vera ánægð með árangurinn af samtali sínu við ríkisstjórnina, en hún ákvað á fundi sínum í dag að leggja fyrir Alþingi frumvarp sem heimilar fyrirtækjum í tilteknum flokkum veitingaþjónustu, sem hafa orðið að sæta takmörkunum á opnunartíma vegna kórónuveirufaraldursins, að fresta staðgreiðslu skatta og greiðslu tryggingagjalds.
Auk þess verður umsóknarfrestur vegna almennra viðspyrnustyrkja fyrir nóvember 2021 framlengdur, að því er fram kemur á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins.
„Þetta er náttúrulega bara mjög jákvætt og mikilvægt að þarna er komið til móts við þær raddir eins og okkar hjá SAF sem að höfum verið að benda á að þessi fyrirtæki hafi lent svolítið utangarðs í aðgerðunum hingað til,“ segir Jóhannes í samtali við mbl.is.
„Þarna er komið myndarlega sýnist mér til móts við þetta, náttúrulega bara í samræmi við það sem við höfum verið að ræða við stjórnvöld undanfarnar vikur.“
Jóhannes segir samtökin hafa sent stjórnvöldum ítarlegar tillögur um þetta í byrjun desember og þær verið ásamt öðru til umfjöllunar innan stjórnarráðsins.
„Við erum mjög ánægð með árangurinn af þessu samtali okkar við ríkisstjórn.“
Jóhannes telur það einnig vera gott að sjá að það standi til að framlengja eða bæta við úrræðum fyrir ferðaþjónustu- og menningarstarfssemi í kjölfarið. Ferðaþjónustufyrirtæki horfi núna fram á þungar vikur framundan, þar sem takmarkanir þrengi að ýmsum rekstri.