Þær sóttvarnaaðgerðir sem taka gildi á miðnætti setja strik í reikninginn hjá fjölda fyrirtækja. Stjórnvöld þurfa að stíga fram með trúverðugar efnahagsaðgerðir. Vænta má frekari útfærslu á þeim efnahagsaðgerðum sem kynntar voru í dag eftir helgi.
Þetta segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í samtali við mbl.is.
Fjármála- og efnahagsráðuneytið tilkynnti í dag um nýjar stuðningsaðgerðir til að draga úr því tjóni sem fyrirtæki verða fyrir sökum þeirra hertu sóttvarnaaðgerða sem taka gildi á morgun.
„Aðgerðirnar eru augljóslega mjög íþyngjandi og munu setja strik í reikninginn hjá fjölda fyrirtækja. Ég hef lagt þá áherslu að það sé nauðsynlegt að koma til móts við þau fyrirtæki sem verða verst út í þessu. Ljóst er að tíu manna samkomubann og lokun fjölda fyrirtækja mun þýða að ríkissjóður þurfi að stíga fram með trúverðugar efnahagsaðgerðir sem stuðning við þau fyrirtæki sem er gert að loka eða þurfa að starfa í verulegra skertri starfsemi.
Ég vænti þess að strax eftir helgi verði nánari útfærsla birt á þeim efnahagsaðgerðum sem sýnt var á spilin í dag. Enda má íslensk atvinnulíf engan tíma missa eins og sakir standa,“ segir Halldór Benjamín.
Halldór Benjamín sagði á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis á þriðjudaginn að helsta bjargræðið fyrir atvinnulífið væri að endurgreiða fyrirtækjum hluta launa starfsmanna sinna sem hafa verið skikkaðir í einangrun.
Hann væntir þess að málið komist á rekspöl strax eftir helgi.
„Við höfum talað fyrir því að undanförnu að það sé nauðsynlegt að ríkisstjórnin stígi sömu skref og búið er að stíga í Danmörku, Svíþjóð og Noregi að hluta til. Að tekið verði upp samskonar fyrirkomulag varðandi greiðslu launa í einangrun og verið hefur varðandi greiðslu launa í sóttkví.“