Vátryggingafélag Íslands (VÍS) ætlar að lækka iðgjöld bifreiðatrygginga þeirra viðskipta vina sinna, sem fara varlegar í umferðinni, um allt að 17%. Lækkunin hefur þegar tekið gildi og munu viðskiptavinir félagsins sjá hana á næstu afborgun sinni.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu þar sem segir að tæpt ár sé liðið frá því að Ökuvísir var tekinn í notkun, kerfi sem fylgist með akstursháttum viðskiptavina og býður þeim betri kjör sem aka betur.
„Ökuvísir er eina bílatryggingin á Íslandi þar sem einungis tveir þættir hafa áhrif á verðið, þ.e. hvernig þú keyrir (aksturseinkunn) og hversu mikið þú keyrir. Aksturseinkunn byggir á fimm þáttum; hraða, hröðun, beygjum, hemlun og símanotkun. Því betur og minna sem viðskiptavinir okkar keyra, því minna borga þeir,“ segir í tilkynningunni.
VÍS mun lækka verð á tryggingum hjá þeim ökumönnum sem eru með aksturseinkunnina 87 eða hærra en meðaleinkunn viðskiptavina er yfir 90.
Þeir sem eru með 100 í einkunn fá 17% lækkun á sín iðgjöld og mun lækkunin verða meiri ef keyrt er innan við 500km næsta mánuðinn.
„Við viljum fækka bílslysum á Íslandi og höfum mikla trú á Ökuvísi. Því gleður okkur að sjá hversu mikið viðskiptavinir okkar hafa bætt aksturinn ─ sem veitir okkur nú svigrúm til þess að lækka verðið fyrir bílatryggingar í Ökuvísi. Málið snýst einfaldlega um að keyra vel og borga minna. Hægt er að sjá á vis.is hvað tryggingin kostar. Verðskrá fyrir bílatryggingar hefur því aldrei verið jafn skýr og gagnsæ. Við ætlum að breyta því hvernig tryggingar virka ─ og Ökuvísir er svo sannarlega gott dæmi um það,“ er haft eftir Helga Bjarnasyni, forstjóra VÍS, í fréttatilkynningunni.