Þóroddur Bjarnason
Hertar samkomutakmarkanir og aukinn fjöldi fólks í sóttkví og einangrun hafa aukið eftirspurn eftir þjónustu netverslana og heimsendingarfyrirtækja, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Krónunnar, segir að Snjallverslun Krónunnar sæki sífellt meira í sig veðrið. „Síðasti föstudagur var metdagur hjá okkur í sölu og afhendingu til viðskiptavina okkar í gegnum netið. Við höfum stöðugt verið að bæta við okkur starfsfólki til að mæta auknum viðskiptum og bæta ferla og þjónustu í kringum Snjallverslunina,“ segir Ásta.
Hún segir að álagið sé mjög mikið þessa dagana, á þakklátan hátt, eins og hún orðar það. „Þessi sprettur hófst rétt fyrir jólin og honum hefur ekki linnt síðan. Við erum að sjá marga nýja notendur.“
Ásta segir að sóttkví og einangrun starfsfólks vegna faraldursins hafi verið krefjandi.
Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa, segir að síðan tuttugasta desember sl., þegar hertar takmarkanir tóku gildi, hafi Samkaup, sem reka m.a. Nettó-verslanirnar, farið að sjá verulegan vöxt frá þeirri sölu sem verið hafði.