Eigendur tómatræktarinnar í Friðheimum í Biskupstungum dóu ekki ráðalausir þegar ferðaþjónustan hvarf eins og dögg fyrir sólu. Hún hafði staðið undir miklum meirihluta tekna fyrirtækisins á síðustu árum. Í stað þess að rifa seglin og segja upp starfsfólki ákváðu hjónin Knútur Rafn Ármann og Helena Hermundardóttir, sem byggt hafa upp starfsemina í Friðheimum frá árinu 1995, að ráðast í umfangsmikla uppbyggingu og efla ræktunarstarfið á svæðinu.
Í aðdraganda kórónuveirufaraldursins voru tekjurnar af framleiðslunni aðeins lítill hluti heildarteknanna sem að mestu komu frá þeim 180 þúsund gestum sem sóttu búið heim á ári.
„Þegar öllu var lokað vegna faraldursins vorum við áhyggjufull enda með 48 fastráðna starfsmenn á staðnum. Við gátum ekki hugsað okkur að missa okkar góða fólk frá okkur. Það hefði verið mikið tjón enda þau búin að byggja upp ævintýrið með okkur,“ segir Knútur. Hann bendir á að með uppbyggingunni, sem fólst í kaupum á jörðinni við hlið Friðheima og byggingu 5.600 fermetra byggingar, hafi framleiðsla búsins tvöfaldast. Er hún nú hæglega 600-700 tonn á ári og gerir Friðheima að umsvifamesta tómatræktanda landsins.
Nánar má lesa um málið í Viðskiptamogganum í dag.